Fyrirliðinn snýr aftur í hópinn

Sergio Busquets er mættur aftur í landsliðshóp Spánverja.
Sergio Busquets er mættur aftur í landsliðshóp Spánverja. AFP

Sergio Busquets, fyrirliði spænska landsliðsins í knattspyrnu, er mættur aftur í leikmannahóp liðsins eftir að hafa jafnað sig af kórónuveirunni. Þetta tilkynnti spænska knattspyrnusambandið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Busquets greindist með kórónuveiruna nokkrum dögum áður en EM hófst og missti af fyrsta leik Spánverja á mótinu gegn Svíþjóð í E-riðli keppninnar í Sevilla en leiknum lauk með markalausu jafntefli.

Miðjumaðurinn gekkst undir kórónuveirupróf í gær sem reyndist neikvætt og hann er því leikfær gegn Pólverjum á morgun þegar liðin mætast í Sevilla.

Spánverjar eru með 1 stig í þriðja sæti riðilsins en Busquets á að baki 123 landsleiki fyrir Spán og er reynslumesti leikmaður liðsins en Jordi Alba, liðsfélagi hans hjá Barcelona, kemur þar á eftir með 73 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert