Hólmbert á leið til Þýskalands

Hólmbert Aron Friðjónsson á æfingu með íslenska landsliðinu síðastliðið haust.
Hólmbert Aron Friðjónsson á æfingu með íslenska landsliðinu síðastliðið haust. Eggert Jóhannesson

Hólmbert Aron Friðjónsson, framherji ítalska knattspyrnuliðsins Brescia og íslenska landsliðsins, er á leið til þýska B-deildarliðsins Holstein Kiel.

Þetta kemur fram á 433.is, sem kveðst hafa öruggar heimildir fyrir því að Brescia sé búið að samþykkja tilboð frá þýska félaginu.

Hómbert átti erfitt uppdráttar hjá Brescia í ítölsku B-deildinni á nýafstöðnu tímabili, þar sem hann glímdi við þrálát meiðsli og fékk auk þess fá tækifæri þegar hann var heill heilsu.

Hann samdi við liðið í október síðastliðnum þegar hann var keyptur frá Álasundi í Noregi og kom aðeins við sögu í tíu deildarleikjum. Í öllum þeirra kom hann inn á sem varamaður.

mbl.is