Hollendingurinn orðinn leikmaður Barcelona

Memphis Depay er orðinn leikmaður Barcelona.
Memphis Depay er orðinn leikmaður Barcelona. AFP

Hollenski knattspyrnumaðurinn Memphis Depay hefur gert tveggja ára samning við spænska stórliðið Barcelona. Depay kemur á frjálsri sölu frá Lyon í Frakklandi þar sem samningur hans rennur út um mánaðamótin.

Depay mun spila undir stjórn landa síns Ronalds Koemans hjá Barcelona en þeir unnu saman hjá hollenska landsliðinu og þekkjast vel.

Depay er þriðji leikmaðurinn sem Barcelona fær til sín á frjálsri sölu í sumar en Eric Garcia og Sergio Agüero komu á dögunum frá Manchester City.

Hollenski sóknarmaðurinn lék 139 deildarleiki með Lyon og skoraði 63 mörk. Hann hefur skorað 27 mörk í 66 landsleikjum fyrir Holland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert