Ronaldo kók af skarið

Cristiano Ronaldo með vatnsflöskuna góðu.
Cristiano Ronaldo með vatnsflöskuna góðu. AFP

Nafnkunnir og vinsælir drykkir, sykraðir sem áfengir, hafa átt betri vikur, en mikla athygli vakti þegar knattspyrnustjarnan Cristiano Ronaldo frá Portúgal fjarlægði tvær kókflöskur af borðinu fyrir framan sig fyrir blaðamannafund á Evrópumeistaramótinu (EM). Daginn eftir gerði Frakkinn Paul Pogba slíkt hið sama, nema hvað flaskan sem hann vildi ómögulega láta sjá sig með var merkt bjórframleiðandanum Heineken. Pogba er múslimi og lætur áfengi aldrei inn fyrir sínar varir; gilti þá einu að um óáfengan bjór var að ræða.

„Vatn,“ sagði Ronaldo hátt og snjallt á portúgölsku og lyfti plastflösku með slíkum vökva á loft. Auk þess að sparka tuðru er hann svokallaður áhrifavaldur með 500 milljónir fylgjenda og samkvæmt fyrstu fréttum voru hlutabréf í Coca Cola skyndilega í frjálsu falli. Tapið sagt nema um fjórum milljörðum bandaríkjadala, sem samsvarar um 484 milljörðum króna.

Mögulega var það þó ofmat. Þannig greinir Gregori Volokhine, forseti Meeschaert-fjármálaþjónustunnar í New York, frá því í samtali við AFP-fréttaveituna að hlutabréf í Coca Cola hafi aðeins farið niður um 0,25% þennan dag sem hafi verið í samræmi við þróun Dow Jones-vísitölunnar. Bakslagið sé því nær 500 milljónum dala en ekki fjórum milljörðum og alls ekki víst að nein ábyrgð liggi hjá Ronaldo. „Ef ekki væri fyrir þennan gjörning þá hefði ekki nokkur maður veitt þessu athygli,“ segir Volokhine en markaðsvirði Coca Cola nemur 325 milljörðum dala. Ekki reyna að biðja mig, málabrautarstúdentinn, að færa þá upphæð yfir í krónur!

Hingað og ekki lengra, gæti Paul Pogba verið að segja.
Hingað og ekki lengra, gæti Paul Pogba verið að segja. AFP


Það breytir ekki því að margir hafa borið lof á gjörðir leikmannanna; enda hafi þær snúist um heilbrigði en ekki peninga. Það hverfist víst ekki allt um þá í þessum heimi, ótrúlegt en satt. Ronaldo er forfallið heilsufrík og fyrirmynd milljóna ungmenna um allan heim, þannig að ekki kemur á óvart að lagðar séu við hlustir þegar hann tekur til máls.

Eins og svo margir frægir íþróttamenn hefur Ronaldo auglýst allt mögulegt og ómögulegt gegnum tíðina, til að hafa fyrir salti í grautinn, þar á meðal Coca Cola fyrir hálfum öðrum áratug. Kominn á efri ár í sportinu, hann er orðinn 36 ára, hefur hann hins vegar öðlast aukið frelsi til að tala frá eigin brjósti.

Í fullum rétti

„Svo virðist sem íþróttamenn séu að endurheimta sína eigin rödd,“ segir Simon Chadwick, prófessor við Emlyon-viðskiptaskólann í Frakkandi, við AFP. „Þeir áskilja sér nú í auknum mæli rétt til að tala og haga sér í samræmi við sín eigin gildi, hvað þeim finnst og eru að hugsa.“

Að dómi Chadwicks var stórstjarnan í reynd að lýsa yfir sjálfstæði sínu á téðum blaðamannafundi. Hann túlkar gjörninginn með þessum orðum: „Sem einstaklingur er ég í fullum rétti til að halda áfram með líf mitt, óháð öllu því sem ég hef gert áður. Mér er heimilt að skipta um skoðun, breyta mínum gildum og leggjast gegn vörum sem passa ekki við það sem ég er og stend fyrir.“

Chadwick segir langdrægni samfélagsmiðla gefa slíkum andmælum enn meira vægi. „Hvort sem það er í net- eða raunheimum þá færirðu bara það sem er fyrir þér eða hentar þér ekki í burtu.“

Hvorki Coca-Cola né Heineken vildu tjá sig við AFP en mótsstjóri EM, Martin Kallen, sagði: „Tekjurnar frá styrktaraðilum eru mikilvægar fyrir mótið og evrópska knattspyrnu yfirhöfuð.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »