Diljá Ýr skoraði í risasigri gegn Hallberu og stöllum

Diljá Ýr Zomers kom inn á sem varamaður hjá Häcken …
Diljá Ýr Zomers kom inn á sem varamaður hjá Häcken og rak síðasta naglann í kistu AIK með tíunda marki liðsins. Ljósmynd/Häcken

Hallbera Guðný Gísladóttir og liðsfélagar hennar í AIK vilja væntanlega gleyma leik sínum gegn Häcken í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag sem fyrst. Häcken vann ótrúlegan 10:0 stórsigur þar sem Diljá Ýr Zomers skoraði tíunda mark liðsins.

Häcken komst í 5:0 eftir 25 mínútna leik og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Eftir rúmlega klukkutíma leik var staðan orðin 9:0 og kom Diljá Ýr inn á sem varamaður skömmu síðar, á 66. mínútu.

Hún bætti við tíunda markinu á 76. mínútu og þar við sat.

Sænska landsliðskonan Stina Blackstenius gerði þrennu fyrir Häcken og Milica Mijatovic skoraði tvö mörk.

Diljá Ýr hefur nú komið við sögu í fjórum leikjum í sænsku úrvalsdeildinni með Häcken og er búin að skora tvö mörk.

Hallbera Guðný lék allan leikinn í vörn AIK.

Þetta er annað stórtap AIK með stuttu millibili, en liðið tapaði 0:7 gegn toppliði Rosengård í lok maí en vann hins vegar Örebro 2:0 í millitíðinni.

Häcken er í öðru sæti sænsku úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum á eftir Rosengård, sem á þó leik til góða.

Nýliðar AIK eru þrátt fyrir tapið á fínum stað í áttunda sæti, sex stigum frá fallsæti, en með langverstu markatöluna í deildinni.

Fyrr í dag fór fram annar Íslendingaslagur í deildinni, þar sem Växjö og Djurgården gerðu markalaust jafntefli.

Andrea Mist Pálsdóttir lék allan leikinn í framlínu Växjö og Guðrún Arnardóttir sömuleiðis allan leikinn í vörn Djurgården.

Växjö er á botninum, 12. sæti, með aðeins 3 stig og Djurgården er í 10. sæti með 7 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert