Ítalía og Wales áfram – Tyrkland úr leik

Manuel Locatelli fór mikinn fyrir Ítala.
Manuel Locatelli fór mikinn fyrir Ítala. AFP

Ítalía og Wales eru komin áfram í sextán liða úrslit Evrópumóts karla í knattspyrnu en liðin mættust í A-riðli keppninnar í Róm á Ítalíu í lokaumferð riðlakeppninnar í dag.

Matteo Pessina skoraði sigurmark Ítala í 1:0-sigri liðsins á 39. mínútu en Walesverjar léku einum manni færri frá 55. mínútu þegar Ethan Ampadu fékk að líta beint rautt spjald fyrir ljótt brot.

Ítalir, sem voru komnir áfram fyrir leik dagsins, ljúka riðlakeppninni með 9 stig eða fullt hús stiga í efsta sæti riðilsins en Wales endar í öðru sætinu með 4 stig.

Þá vann Sviss 3:1-sigur gegn Tyrklandi í Bakú í Aserbaídsjan þar sem Haris Seferovic og Xherdan Shaqiri skoruðu mörk Sviss í fyrri hálfleik.

Irfan Kahveci minnkaði muninn fyrir Tyrki á 62. mínútu áður en Shaqiri bætti við þriðja marki Sviss á 68. mínútu og þar við sat.

Sviss lýkur riðlakeppninni með 4 stig í þriðja sæti riðilsins og mun það skýrast síðar í vikunni hvort liðið komist áfram í útsláttakeppnina.

Tyrkir eru hins vegar úr leik en liðið vann ekki leik á mótinu og endaði með sjö mörk í mínus.

Xherdan Shaqiri fagnar gegn Tyrkjum.
Xherdan Shaqiri fagnar gegn Tyrkjum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert