„Látið Christian í friði!“

Daley Blind og Christian Eriksen voru liðsfélagar hjá Ajax fyrir …
Daley Blind og Christian Eriksen voru liðsfélagar hjá Ajax fyrir tæpum áratug. TOUSSAINT KLUITERS

Daley Blind, varnarmaður hollenska landsliðsins í knattspyrnu, hefur óskað eftir því að fólk hætti að velta fyrir sér framtíð Christians Eriksens á knattspyrnuvellinum.

Eriksen hneig niður í leik Danmerkur og Finnlands á Evrópumótinu í fótbolta og fór í hjartastopp áður en tókst að endurlífga hann. Nokkrum dögum síðar var ákveðið að Eriksen skyldi frá bjargráð, sem verður græddur í hann með aðgerð.

Blind fékk sjálfur græddan í sig bjargráð eftir að hafa greinst með hjartavöðvabólgu í kjölfar þess að hann fann fyrir miklum svima í Meistaradeildarleik með Ajax gegn Valencia í desember árið 2019.

Hann þekkir því hvernig er að upplifa það að fá svoleiðis tæki grætt í sig vegna hjartavandamála og minnist þess að fjöldi fólks, þeirra á meðal knattspyrnusérfræðingar, hafi fullyrt að Blind kæmi aldrei til með að spila knattspyrnu á ný.

„Þegar þetta kom fyrir mig var öll heimsbyggðin að segja mér að ferli mínum sem leikmaður væri lokið, að ég myndi ekki geta spilað aftur. Sjáið hvar ég er í dag. Þess vegna segi ég við alla: „Látið Christian í friði!““

Var ekkert hræddur

Blind, sem var liðsfélagi Eriksens hjá Ajax um árabil og er góður vinur hans, er í hollenska landsliðshópnum og búinn að byrja báða leikina til þessa, sigurleiki gegn Úkraínu og Austurríki.

„Mér fannst ég tilbúinn og leið vel með það að snúa aftur þegar ég fékk grænt ljós frá læknunum á spítalanum og læknateyminu hjá Ajax.

Það var engin ástæða til þess að ætla að ég gæti ekki spilað á hæsta stigi aftur. Það er mikilvægast að finna fyrir frelsi innra með sér,“ bætti Blind við.

Hann sagði að lokum ekkert að óttast.

Ég var ekkert hræddur. Ég var bara gífurlega hamingjusamur yfir því að fá leyfi til þess að verða aftur hluti af liðinu. Þegar læknarnir segja þér að þú megir spila aftur finnurðu bara fyrir spenningi fyrir því að spila, ekki ótta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert