Lokaumferðin hefst í dag – hverjir gætu mæst í 16-liða úrslitum?

Ciro Immobile og Gareth Bale mætast í dag þegar Ítalía …
Ciro Immobile og Gareth Bale mætast í dag þegar Ítalía og Wales leika um sigurinn í A-riðli. AFP

Lokaumferðin í riðlakeppni Evrópumóts karla í fótbolta hefst í dag þegar tveir síðustu leikirnir í A-riðlinum fara fram.

Þeir hefjast báðir klukkan 16 að íslenskum tíma en Sviss og Tyrkland mætast í Bakú og Ítalía mætir Wales í Róm.

Ítalir eru komnir áfram og eru með sex stig, Walesbúar eru með fjögur stig, Svisslendingar eitt og Tyrkir ekkert. Ítalir þurfa því aðeins jafntefli til að vinna riðilinn og Wales myndi líka gulltryggja sig áfram með stigi. Viðureign Tyrkja og Svisslendinga er hreinn úrslitaleikur þar sem sigurliðið á möguleika á að komast í 16-liða úrslitin en það ræðst endanlega af úrslitum annarra leikja.

Hollendingarnir Denzel Dumfries og Memphis Depay fagna marki. Þeir hafa …
Hollendingarnir Denzel Dumfries og Memphis Depay fagna marki. Þeir hafa þegar tryggt sér sigur í C-riðli. AFP

Síðan heldur lokaumferðin áfram og leikið er í B- og C-riðlum á mánudaginn, í D-riðli á þriðjudaginn og í E- og F-riðlum á miðvikudaginn, en að þeim loknum liggur endanlega fyrir hverjir mætast í sextán liða úrslitunum sem hefjast á laugardaginn kemur.

Tvö efstu liðin í hverjum riðli fara áfram, sem og fjögur af þeim sex liðum sem enda í þriðja sæti riðlanna.

Staðan í riðlunum er þannig eftir tvær umferðir af þremur:

A: Ítalía 6, Wales 4, Sviss 1, Tyrkland 0.

B: Belgía 6, Rússland 3, Finnland 3, Danmörk 0.

C: Holland 6, Úkraína 3, Austurríki 3, Norður-Makedónía 0.

D: Tékkland 4, England 4, Króatía 1, Skotland 1.

E: Svíþjóð 4, Slóvakía 3, Spánn 2, Pólland 1.

F: Frakkland 4, Þýskaland 3, Portúgal 3, Ungverjaland 1.

Kevin De Bruyne og félagar í belgíska landsliðinu eru þegar …
Kevin De Bruyne og félagar í belgíska landsliðinu eru þegar komnir í 16-liða úrslit. AFP

Aðeins Holland, Ítalía og Belgía hafa tryggt sér sæti í sextán liða úrslitum og Holland er eina liðið sem er öruggt með sigur í sínum riðli. Norður-Makedónía er eina liðið af þeim 24 sem taka þátt í keppninni sem á enga möguleika á að komast í sextán liða úrslit.

Eins og staðan er í riðlunum núna myndu eftirtalin lið mætast í 16-liða úrslitum:

Belgía (1B)  Spánn (3E)
Ítalía (1A)  Úkraína (2C)
Frakkland (1F)  Finnland (3B)
England (2D)  Slóvakía (2E)
Svíþjóð (1E)  Austurríki (3C)
Tékkland (1D)  Þýskaland (2F)
Holland (1C)  Portúgal (3F)
Wales (2A)  Rússland (2B)

Króatía og Sviss eru með lakastan árangur í þriðja sæti riðlanna eftir tvær umferðir og myndu ekki komast áfram ef þetta væri lokastaðan.

mbl.is