Panenka-spyrnan fagnar 45 ára afmæli (myndskeið)

Antonín Panenka býr sig undir að spyrna.
Antonín Panenka býr sig undir að spyrna. Skjáskot/UEFA

Það var á þessum degi, þann 20. júní fyrir 45 árum, þegar Antonin Panenka skráði nafn sitt í sögubækur knattspyrnunnar, ekki einungis vegna þess að hann skoraði úr fimmta og síðasta víti Tékkóslóvakíu gegn Vestur-Þýskalandi og tryggði liðinu þar með Evrópumeistaratitilinn, heldur einnig vegna óvenjulegrar framkvæmdar spyrnunnar.

Panenka hljóp nefnilega að boltanum og vippaði honum laust á mitt markið. Slík framkvæmd á vítaspyrnum hafði ekki tíðkast fram að þessu og því lá beinast við að nefna þessa tegund spyrnu í höfuðið á honum.

EM var öllu smærra í sniðum árið 1976 en það er í dag þar sem aðeins fjögur lið tryggðu sér sæti. Tékkóslóvakía vann Holland 3:1 í undanúrslitunum og Vestur-Þýskaland 5:3 í vítaspyrnukeppni eftir að staðan var 2:2 eftir venjulegan leiktíma.

Panenka, sem skartaði ávallt og skartar enn myndarlegu yfirvaraskeggi, var sóknartengiliður og lék í Tékkóslóvakíu og Austurríki á ferli sínum ásamt því að skora 17 mörk í 59 landsleikjum fyrir fyrir Tékkóslóvakíu.

Vítaspyrnuna sögufrægu má sjá í myndskeiðinu hér að neðan:

Antonín Panenka árið 2019.
Antonín Panenka árið 2019. Ljósmynd/David Sedlecký
mbl.is