Sveindís skoraði í þrumuveðri í Svíþjóð

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði fyrsta mark Kristianstad.
Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði fyrsta mark Kristianstad. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði fyrsta mark Kristianstad þegar liðið heimsótti Örebro í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Leiknum lauk með 2:0-sigri Kristianstad en Sveindís Jane, sem var í byrjunarliði Kristianstad og var skipt af velli í uppbótartíma síðari hálfleiks, kom sínu liði yfir strax á 5. mínútu.

Gera þurfti hlé á leiknum á 87. mínútu vegna þrumuveðurs í Örebro en eftir nokkurt hlé sneru liðin aftur út á völlinn og kláruðu leikinn.

Sif Atladóttir var í byrjunarliði Kristianstad en var skipt af velli á 56. mínútu. Þá lék Berglind Rós Ágústsdóttir allan leikinn með Örebro en Cecilía Rán Rúnarsdóttir var ónotaður varamaður hjá Örebro.

Kristianstad er í þriðja sæti deildarinnar með 16 stig, 6 stigum minna en topplið Rosengård sem á leik til góða á Kristianstad, en Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari liðsins. Örebro er hins vegar með 10 stig í sjöunda sætinu.

mbl.is