Danir sendu Rússa heim

Andreas Christensen fagnar stórglæsilegu marki sínu á Parken í kvöld.
Andreas Christensen fagnar stórglæsilegu marki sínu á Parken í kvöld. AFP

Danir burstuðu Rússa á Parken í Kaupmannahöfn í kvöld 4:1 í B-riðli EM karla í knattspyrnu og tryggðu sér sæti í 16-liða úrslitum þrátt fyrir allt sem á undan er gengið. 

Danmörk, Finnland og Rússland fengu öll 3 stig í riðlinum. Þau unnu hvert annað innbyrðis en töpuðu öll fyrir Belgum. Belgía vann Finnland 2:0 í kvöld og er með 9 stig. Danir komast áfram á markamun og ná 2. sætinu í riðlinum. Þar reyndust mörkin fjögur í kvöld mikilvæg. Að sama skapi gera þau það að verkum að Rússar fara heim en Finnar bíða átekta með sín 3 stig. 

Þar með er ljóst að lið sem náð hafa fjórum stigum eru komin áfram í 16-liða úrslit. Frakkar, Svíar, Englendingar, Svisslendingar og Tékkar eru komnir áfram með 4 stig en Finnar og Úkraínumenn bíða með 3 stig. 

Danmörk mun mæta Wales í 16-liða úrslitum. 

Mikkel Damsgaard skoraði fyrsta mark Dana á 38. mínútu með lúmsku skoti utan vítateigs. Yussuf Poulsen skoraði annað markið á 59. mínútu eftir skelfileg mistök hjá Rússum sem gáfust þó ekki upp heldur minnkuðu muninn þegar Artem Dzyuba skoraði úr víti. Andreas Christensen skoraði með þvílíku þrumuskoti utan vítateigs á 79. mínútu og Joakim Mæhle innsiglaði sigur Dana eftir skyndisókn á 82. mínútu. 

Í St. Pétursborg biðu Belgar með það að skora fram í síðari hálfleik. Þá skoraði Romelu Lukaku en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Sjálfsmark kom Belgíu yfir á 74. mínútu og Lukaku bætti við marki á 81. mínútu og hefur þá skorað þrjú mörk í keppninni. 

Romelu Lukaku fagnar þriðja marki sínu í keppninni í kvöld.
Romelu Lukaku fagnar þriðja marki sínu í keppninni í kvöld. AFP
mbl.is