Greindist með veiruna fyrir mikilvægan leik

Billy Gilmour var valinn maður leiksins gegn Englandi.
Billy Gilmour var valinn maður leiksins gegn Englandi. AFP

Billy Gilmour, miðjumaður skoska landsliðsins og Chelsea, hefur greinst með kórónuveiruna og missir þar með af gífurlega mikilvægum leik Skota gegn Króatíu í lokaumferð D-riðils Evrópumótsins í fótbolta á morgun.

Skoska knattspyrnusambandið staðfesti þetta í morgun og greinir frá því að Gilmour sé kominn í einangrun.

„Eftir að hafa ráðfært okkur við heilsuyfirvöld á Englandi mun Billy nú fara í einangrun í 10 daga og mun þar með missa af leiknum gegn Króatíu á Hampden á morgun,“ sagði í tilkynningu frá knattspyrnusambandinu.

Ljóst er að um mikinn skell er að ræða fyrir Gilmour og landsliðið, enda kom hann afar sterkur inn í byrjunarlið Skota í markalausa jafntefli gegn Englandi í riðlinum í síðustu viku og var valinn maður leiksins.

Jafnteflið þýðir að leikurinn gegn Króatíu á morgun er gríðarlega mikilvægur, þar sem bæði lið eru með eitt stig og eiga því enn möguleika á því að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum EM með sigri.

mbl.is