Indælt að vera með 82 milljónir þjálfara

Leon Goretzka eftir leikinn gegn Portúgal á laugardaginn.
Leon Goretzka eftir leikinn gegn Portúgal á laugardaginn. AFP

Leon Goretzka, miðjumaður þýska landsliðsins og Bayern München, segist afar ánægður með að hafa fengið að upplifa það að spila fyrir framan fjölda áhorfenda á ný.

Í 4:2 sigri Þýskalands gegn Portúgal í F-riðli Evrópumótsins í fótbolta á laugardaginn voru áhorfendur leyfðir á Allianz-vellinum í München í fyrsta skipti eftir langt hlé, þótt ekki hafi mátt selja alla miðana á völlinn.

Goretzka kom inn á sem varamaður í leiknum eftir að hafa misst af fyrsta leiknum gegn Frakklandi, 0:1 tapi, vegna smávægilegra meiðsla. Þýskaland mætir Ungverjalandi í lokaumferð riðilsins á miðvikudagskvöld.

„Á vellinum leið manni eins og það væri uppselt og okkur fannst sem það gætti vissrar alsælu á meðal áhorfenda eftir erfiða 18 mánuði,“ sagði hann á blaðamannafundi í dag og vísaði þar vitanlega til kórónuveirufaraldursins.

Hann sló svo á létta strengi: „Það er indælt að vera komnir með 82 milljónir þjálfara á ný í staðinn fyrir 82 milljónir veirufræðinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert