Kólumbía tapaði óvænt – Venesúela hársbreidd frá sigri

Leikmenn Venesúela fagna öðru marka sinna í gærkvöldi.
Leikmenn Venesúela fagna öðru marka sinna í gærkvöldi. AFP

Kólumbía þurfti að sætta sig við tap gegn Perú þegar liðin mættust í þriðju umferð B-riðils Ameríkubikarsins í knattspyrnu karla, Copa America, í nótt. Í gærkvöldi var vængbrotið lið Venesúela svo örfáum mínútum frá því að sigra Ekvador en jöfnunarmark í uppbótartíma kom í veg fyrir það.

Sergio Pena kom Perú yfir á 17. mínútu og leiddi 1:0 í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleik, á 53. mínútu, jafnaði Miguel Borja metin fyrir Kólumbíumenn með marki úr vítaspyrnu.

Á 64. mínútu kom svo sigurmark Perú þegar Yerry Mina, samherji Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Fleiri urðu mörkin ekki og góður 2:1 sigur Perú staðreynd.

Venesúela, sem þurfti að kalla inn 15 nýja leikmenn örfáum dögum áður en mótið hófst, komst tvisvar yfir gegn Ekvador og virtist vera að sigla frábærum sigri í höfn, en allt kom þó fyrir ekki.

Eduard Preciado kom Venesúela í forystu á 39. mínútu og var 1:0 yfir í hálfleik

Ekki var mikið liðið á síðari hálfleik þegar Edson Castillo jafnaði metin á 51. mínútu. Staðan orðin 1:1.

Gonzalo Plata kom Venesúela hins vegar aftur yfir á 71. mínútu.

Ronald Hernández bjargaði hins vegar stigi fyrir Ekvador þegar hann jafnaði metin á fyrstu mínútu uppbótartíma.

Staðan orðin 2:2, sem reyndust lokatölur.

Brasilía er á toppi B-riðilsins með 6 stig eftir tvo leiki og þar á eftir kemur Kólumbía með 4 stig eftir þrjá leiki.

Perú fer með sigri sínum í gærkvöldi upp í þriðja sætið með 3 stig eftir tvo leiki. Venesúela er svo í fjórða sæti með 2 stig eftir þrjá leiki og Ekvador rekur lestina með eitt stig úr tveimur leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert