Meiðsli í herbúðum Þjóðverja

Thomas Müller er meiddur á hnéskel.
Thomas Müller er meiddur á hnéskel. AFP

Alls voru fjórir leikmenn fjarverandi á æfingu þýska karlalandsliðsins í knattspyrnu í morgun og er því óvíst með þátttöku þeirra í lokaumferð F-riðils Evrópumótsins í fótbolta á miðvikudaginn.

Þetta eru þeir Thomas Müller, Mats Hummels, Ilkay Gündogan og Lukas Klostermann.

Müller er að glíma við meiðsli á hnéskel og mun missa af leik Þýskalands gegn Ungverjalandi á miðvikudaginn og hugsanlega leik liðsins í 16-liða úrslitum, komist liðið þangað.

Svokallað hopparahné er svo að stríða Hummels á meðan Gündogan glímir við meiðsli á kálfa. Þá er Klostermann að glíma við vöðvameiðsli. Óvíst er hvort þeir geti tekið þátt í leiknum á miðvikudag.

Þeir þrír fyrstnefndu eru allir lykilmenn í liði Þýskalands en Klostermann hefur hins vegar ekki komið við sögu í fyrstu tveimur leikjum liðsins á EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert