Af hverju fara Mount og Chilwell í sóttkví en Skotar ekki?

Petr Cech.
Petr Cech. AFP

Petr Cech, tæknilegur ráðgjafi Chelsea og fyrrverandi leikmaður liðsins og tékkneska landsliðsins í knattspyrnu, skilur ekkert í því hvernig það megi vera að tveir leikmenn enska landsliðsins þurfi að fara í viku sóttkví vegna samskipta við leikmann skoska landsliðsins, á meðan skoska landsliðið þurfi þess ekki.

Billy Gilmour, leikmaður skoska landsliðsins, greindist með kórónuveiruna í gærmorgun og síðar um daginn voru Mason Mount og Ben Chilwell, leikmenn enska landsliðsins, skikkaðir í viku sóttkví eftir að þeir umgengust Gilmour. Þremenningarnir eru samherjar hjá Chelsea.

Bæði Mount og Chilwell hafa skilað neikvæðri niðurstöðu eftir að hafa farið í skimun fyrir veirunni, og það sama á við um allt skoska landsliðið. Cech þykir þetta skjóta ansi skökku við.

„Getur einhver vinsamlegast hjálpað mér að skilja hvernig það er mögulegt að Mason Mount og Ben Chilwell, sem hafa báðir skilað neikvæðri niðurstöðu úr skimun, þurfa að fara í einangrun vegna samskipta við Billy Gilmour á meðan allt skoska liðið eins og það leggur sig, sem deildi klefa, hóteli, rútu og flugvél, auk matsals og fundarherbergis, má spila leikinn í kvöld án nokkurra vandkvæða vegna þess að þeir skiluðu neikvæðu niðurstöðunni sem er krafist?“ spurði Tékkinn á Instagram-aðgangi sínum í dag.

„Hvar liggur munurinn þegar allir skila sömu niðurstöðu? Þetta er fullkomlega óskiljanlegt,“ skrifaði hann einnig.

England mætir Tékklandi og Skotland mætir Króatíu í lokaumferð D-riðils Evrópumótsins í kvöld.

mbl.is