Ellefu lið komin áfram - fimm sæti í húfi

Belgar og Danir verða í sextán liða úrslitunum og Danir …
Belgar og Danir verða í sextán liða úrslitunum og Danir vita þegar að þeir mæta Wales. AFP

Þegar keppni er lokið í þremur riðlum af sex á Evrópumóti karla í fótbolta eru ellefu lið örugg með sæti í sextán liða úrslitum keppninnar.

Um fimm síðustu sætin er spilað í kvöld og á morgun en lokaumferð D-riðilsins er leikin í kvöld og lokaumferðir E- og F-riðla fara fram á mánudaginn.

Tékkar og Englendingar mætast kl. 19 í kvöld í úrslitaleik D-riðils. Bæði eru með 4 stig en liðið sem tapar gæti endað í þriðja sæti. Það færi samt alltaf áfram. 

Króatía og Skotland mætast á sama tíma í úrslitaleik um þriðja sæti D-riðils. Bæði eru með 1 stig en sigurliðið færi örugglega áfram og gæti endað í öðru sæti. Endi leikurinn með jafntefli eru bæði lið á heimleið.

Úr A-riðli eru Ítalía, Wales og Sviss komin áfram en Tyrkir eru úr leik.

Úr B-riðli eru Belgía og Danmörk komin áfram, Finnar bíða annarra úrslita en Rússar eru úr leik.

Úr C-riðli eru Holland og Austurríki komin áfram, Úkraína bíður annarra úrslita en Norður-Makedónía er úr leik.

Úr D-riðli eru Tékkland og England komin áfram en Króatía og Skotland eiga bæði möguleika.

Úr E-riðli er Svíþjóð komin áfram en Slóvakía, Spánn og Pólland eiga öll möguleika. Eitt þeirra fer áfram, mögulega tvö.

Úr F-riðli er Frakkland komið áfram en Þýskaland, Portúgal og Ungverjaland eiga öll möguleika. Eitt þeirra fer áfram, mögulega tvö.

Fjögur af þeim sex liðum sem enda í þriðja sæti riðlanna komast áfram. Sviss er með  betri útkomu en bæði Finnland og Úkraína og er því öruggt áfram. Úkraína er með betri markatölu en Finnland og á því meiri möguleika á að fara áfram. 

Tveir leikir í 16-liða úrslitum eru komnir á hreint:

Ítalía - Austurríki
Wales - Danmörk

Belgía og Holland munu bæði leika gegn einhverjum þeirra liða sem enda í þriðja sæti í sínum riðli.

Eins og staðan er núna myndu þessi lið mætast:

Holland - Portúgal
Belgía - Sviss
Tékkland - Þýskaland
England - Slóvakía
Svíþjóð - Úkraína
Frakkland - Finnland

mbl.is