Fer frítt til erkifjendanna

Hakan Calhanoglu í leik með Tyrklandi á EM, en þar …
Hakan Calhanoglu í leik með Tyrklandi á EM, en þar er þátttöku liðsins lokið eftir afleita frammistöðu í A-riðlinum. AFP

Tyrkneski sóknartengiliðurinn Hakan Calhanoglu, sem hefur leikið með AC Milan undanfarin fjögur ár, hefur komist að samkomulagi við Inter frá Mílanó um að leika með liðinu næstu þrjú árin.

Samningur Calhanoglu við nágrannana og erkifjendurna í AC Milan rennur út um mánaðamótin og því hefur honum verið frjálst að ræða við önnur félög undanfarið hálft ár.

„Ég hef náð samkomulagi við Inter. Ég fer til Mílanó á morgun [í dag] og mun skrifa undir samninginn eftir læknisskoðunina,“ staðfesti Calhanoglu í samtali við tyrknesku sjónvarpsstöðina TRT News í gær.

Sem áður segir er samningurinn við Ítalíumeistara Inter til þriggja ára, með möguleika á eins árs framlengingu.

Samningaviðræður Calhanoglu við AC Milan voru langar og strangar en sigldu að lokum í strand þar sem honum og félaginu kom ekki saman um laun.

mbl.is