Get ekki ímyndað mér hvernig þeir komust í gegnum þetta

Yussuf Poulsen fagnar marki sínu í sigrinum gegn Rússum í …
Yussuf Poulsen fagnar marki sínu í sigrinum gegn Rússum í gærkvöldi ásamt Kasper Hjulmand, þjálfara Dana. AFP

Kasper Hjulmand, þjálfari danska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var meyr og fullur þakklætis eftir að liðið tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum með mögnuðum 4:1 sigri á Rússum í lokaumferð B-riðils Evrópumótsins í gærkvöldi.

„Við vonuðumst eftir töfrum í kvöld. Ég vil þakka öllu fólkinu sem hefur stutt við bakið á okkur og hefur sýnt okkur mikla ást.

Ég fann að þessi stuðningur hafði mikil áhrif á leikmennina þannig að ég vil þakka kærlega fyrir, hann er okkur gífurlega mikils virði,“ sagði Hjulmand eftir leikinn í gærkvöldi.

Danmörk þurfti á stórum sigri að halda og að treysta á að Belgía myndi vinna Finnland, sem þeir og gerðu, en mörk Belga í 2:0 sigri komu seint í leiknum.

Danir voru stigalausir fyrir lokaumferðina en eygðu þennan möguleika þar sem Belgía var í sérflokki í riðlinum og endaði með fullt hús stiga á meðan öll hin liðin þrjú enduðu með þrjú stig.

Danir höfðu ástæðu til þess að fagna í gærkvöldi.
Danir höfðu ástæðu til þess að fagna í gærkvöldi. AFP

Með sigrinum stóra í gær tryggðu Danir sér annað sæti B-riðils og fara því beint í 16-liða úrslitin.

„Mótiveringin, liðsandinn og vinátta leikmannanna var stórkostleg. Ef einhverjir verðskulda þetta eru það leikmennirnir okkar. Ég get ekki ímyndað mé hvernig þeir komust í gegnum það sem þeir hafa gert,“ bætti Hjulmand við.

Hann vísaði þar vitanlega til áfallsins sem fylgdi því að samherji þeirra, Christian Eriksen, hafi farið í hjartastopp í fyrsta leik riðilsins gegn Finnlandi.

Stuðningsmenn Danmerkur létu ekki sitt eftir liggja í leiknum í …
Stuðningsmenn Danmerkur létu ekki sitt eftir liggja í leiknum í gær. AFP
mbl.is