Sömdu um að fjarlægja klásúlu

Alexander Isak hefur valdið varnarmönnum Spánar og Slóvakíu alls konar …
Alexander Isak hefur valdið varnarmönnum Spánar og Slóvakíu alls konar vandræðum á EM. AFP

Spænska knattspyrnuliðið Real Sociedad hefur komist að samkomulagi við þýska liðið Borussia Dortmund um að klásúla, sem kvað á um að síðarnefnda liðið gæti keypt sænska framherjann Alexander Isak aftur á 30 milljónir evra, yrði fjarlægð úr samningi milli liðanna.

Isak, sem er aðeins 21 árs gamall og skoraði 17 mörk í 34 leikjum í spænsku 1. deildinni á liðnu tímabili, hefur vakið athygli fyrir vaska frammistöðu sína með sænska landsliðinu á Evrópumótinu.

Vegna góðrar frammistöðu í spænsku deildinni og á EM má telja næsta víst að verðmiði Isaks hafi hækkað umtalsvert og forsvarsmenn Sociedad því væntanlega fegnir því að samkomulag hafi náðst við Dortmund.

Talið er að Sociedad hafi greitt Dortmund um fimm milljónir evra fyrir það að láta fjarlægja klásúluna, en spænska liðið keypti Isak af því þýska sumarið 2019 og var klásúlan hluti af kaupunum.

mbl.is