UEFA bannar regnbogafána

Allianz-leikvangurinn verður ekki lýstur upp í regnbogalitunum fyrir leik Þýskalands …
Allianz-leikvangurinn verður ekki lýstur upp í regnbogalitunum fyrir leik Þýskalands gegn Ungverjalandi sem fram fer á miðvikudag. AFP

Evrópska knattspyrnusambandið UEFA hafnaði í dag áformum München um að lýsa Allianz-leikvanginn upp í regnbogalitunum fyrir leik Þýskalands gegn Ungverjalandi á Evrópumótinu í knattspyrnu. Borgin hugðist með regnbogalýsingu sýna í verki stuðning við hinsegin samfélagið og mótmæla lögum sem nýlega voru samþykkt af ungverskum stjórnvöldum. 

„UEFA er stjórnmálalega og trúarlega hlutlaus stofnun,“ segir í yfirlýsingu frá UEFA. „Í ljósi pólitísks eðlis þessarar beiðni – skilaboð sem beinast að ákvörðun ungverskra stjórnvalda – verður UEFA að hafna henni.“

Dieter Reiter, borgarstjóri München, vildi lýsa leikvanginn upp í regnbogalitunum til þess „að senda sjáanlegt merki samstöðu“ til hinsegin samfélagsins í Ungverjalandi. Ungverska ríkisstjórnin samþykkti í síðustu viku lög sem banna „auglýsingar“ um samkynhneigð fyrir börn og ungmenni í landinu, en með lögunum verður allt fræðslu- og kynningarefni þar sem minnst er á hinsegin samfélagið ólöglegt.  

mbl.is