Hart tekist á um ákvörðun UEFA

Evrópska knattspyrnusambandið hafnaði beiðni borgarstjóra München að lýsa Allianz leikvanginn …
Evrópska knattspyrnusambandið hafnaði beiðni borgarstjóra München að lýsa Allianz leikvanginn upp í regnbogalitum í kvöld á leik Þjóðverja og Ungverja AFP

Borgin München í Þýskalandi mun skarta regnbogalitum í kvöld þrátt fyrir að Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hafi hafnað beiðni borgarstjórans, Dieters Reiter, um að lýsa upp Allianz-fótboltavöllinn í regnbogalitunum fyrir leik Þjóðverja og Ungverjalands sem fer fram á eftir. 

Pólitískir regnbogalitir

Beiðnin kom í kjölfar þess að Ungverjar samþykktu lög í síðustu viku sem talin eru ganga á mannréttindi samkynhneigðra, en með þessu athæfi vildu yfirvöld í München senda skilaboð til stuðnings hinsegin samfélaginu í Ungverjalandi.

Tekið var fyrir þá ákvörðun af Evrópska knattspyrnusambandinu í ljósi þess að athæfið þótti of pólitískt, en sambandið gefur sig út fyrir að vera hlutlaust gagnvart bæði trúarbrögðum og pólitík.

UEFA hafnar ásökunum

Evrópska knattspyrnusambandið hafnar þeim ásökunum að sambandið sé að taka afstöðu gegn LGBTQ+ samfélaginu með því að banna Þjóðverjum að lýsa upp Allianz-leikvanginn. UEFA birti tilkynningu fyrir hádegi í dag þar sem fram kemur að regnbogalitirnir tákni grunngildi sambandsins. Er einnig tekið fram að þessari tilteknu beiðni hafi verið hafnað á þeim forsendum að þetta athæfi hafi sérstaka pólitíska tengingu við ungverska landsliðið.

UEFA birti tilkynningu fyrr í dag
UEFA birti tilkynningu fyrr í dag AFP

Ungverjar eru ánægðir með þessa niðurstöðu og hrósa þeir UEFA fyrir að taka afstöðu gegn pólitískri ögrun á fótboltavellinum.

Utanríkisráðherra Þýskalands, Heiko Maas, hefur gagnrýnt þessi rök og bendir hann á að ekki sé um pólitískt athæfi að ræða heldur umburðarlyndi og sanngirni gagnvart fólki. Stefna Þjóðverjar nú á að lýsa upp mannvirki nálægt leikvanginum í regnbogalitunum, auk þess sem regnbogafánum verður komið upp í ráðhúsinu í München.

Knattspyrnusamband Íslands birti einnig mynd í gær á Instagram-síðu sinni af regnbogalita fánanum og fylgdu myllumerkin „stolt“ og „mannréttindi“ með færslunni.

Regnbogalitir umdeildir

Regnbogalitir á fótboltavellinum hafa verið mikið í umræðunni upp á síðkastið en í apríl gaf knattspyrnusambandið í Færeyjum út þau fyrirmæli að leikmenn, dómarar og aðrir þátttakendur sem sýna LGBTQ+ samfélaginu sýnilegan stuðning í leikjum megi búast við rauða spjaldinu. Er þá einnig vísað til þess að pólitískur áróður eigi ekki heima á knattspyrnuvellinum og því hafi verið tekið fyrir þetta athæfi.

Þess má geta að Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, hefur tekið ákvörðun um að leyfa regnbogafána á næsta heimsmeistaramóti sem stefnt er á að halda í Katar. Ákvörðunin um að halda mótið þar hefur mætt mikilli gagnrýni í ljósi mannréttindabrota sem eru þar framin en samkynhneigð er bönnuð með lögum í Katar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert