Líklegasti áfangastaður Ramos

Sergio Ramos hefur verið sterklega orðaður við félög í ensku …
Sergio Ramos hefur verið sterklega orðaður við félög í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Sergio Ramos mun ganga til liðs við knattspyrnulið París SG um næstu mánaðamót þegar samningur hans við Real Madrid rennur út. Það er spænski miðillinn AS sem greinir frá þessu.

Miðvörðurinn, sem er 35 ára gamall, hefur verið fyrirliði Real Madrid undanfarin ár en öll stærstu félög Evrópu hafa áhuga á því að semja við leikmanninn.

Hann hefur verið sterklega orðaður við bæði Manchester City og Manchester United en AS segir að Ramos horfi til Parísar.

Miðvörðurinn gekk til liðs við Real Madrid frá Sevilla árið 2005 og hefur verið algjör lykilmaður hjá félaginu síðan.

Hann hefur fimm sinnum orðið Spánarmeistari með félaginu og fjórum sinnum Evrópumeistari en alls á hann að baki 671 leik fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 101 mark.

mbl.is