Slakir Þjóðverjar

Þjóðverjarnir Toni Kroos og Joachim Löw fallast í faðma eftir …
Þjóðverjarnir Toni Kroos og Joachim Löw fallast í faðma eftir leik kvöldsins. AFP

Jürgen Klinsmann, fyrrverandi þjálfari þýska landsliðsins í knattspyrnu, var ekki hrifinn af spilamennsku liðsins gegn Ungverjalandi í lokaumferð F-riðils Evrópumóts karla í München í kvöld.

Leiknum lauk með 2:2-jafntefli en Þjóðverjar lentu tvívegis undir áður en Leon Goretzka jafnaði metin fyrir þýska liðið á 84. mínútu og skaut þeim þannig áfram í sextán liða úrslitin þar sem þeir mæta Englandi á Wembley í London.

„Þjóðverjar voru slakir í dag,“ sagði Klinsmann en hann var einn af sérfræðingum BBC eftir leikinn.

„Þeir voru hægir og voru í vandræðum allan leikinn. Þeir sluppu fyrir horn og tókst að bjarga sér á lokamínútunum eins og svo oft áður.

Um leið og þeir fóru að taka menn á og náðu upp takti í spilið og meiri hraða fór þetta að ganga betur. 

Það sást samt langar leiðir að þeim leið ekki vel og þeir ofhugsuðu hlutina allt of mikið. Heilt yfir sköpuðu þeir sér nánast ekkert og þá nýttu þeir föstu leikatriðin sín afar illa,“ bætti Klinsmann við.

mbl.is