Fjórir Íslendingar í eldlínunni í Noregi

Brynjólfur Willumsson var í byrjunarliði Kristiansund í dag.
Brynjólfur Willumsson var í byrjunarliði Kristiansund í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

Fimm leikir fóru fram í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag og komu Íslendingar við sögu í fjórum þeirra.

Noregsmeistarar Bodø/Glimt fóru illa að ráði sínu þegar þeir töpuðu 0:2 á heimavelli gegn Molde.

Ohi Omoijuanfo skoraði bæði mörk Molde í síðari hálfleiknum.

Alfons Sampsted lék allan leikinn í liði Bodø/Glimt en Björn Bergmann Sigurðarson var ekki í leikmannahópi Molde vegna meiðsla.

Brynjólfur Willumsson byrjaði í fremstu víglínu hjá Kristiansund þegar liðið gerði 1:1 jafntefli við Mjøndalen.

Ole Amund Sveen kom Mjøndalen yfir áður en Torgil Owre Gjertsen jafnaði fyrir Kristiansund áður en flautað var til leikhlés. Ekki var meira skorað í leiknum.

Brynjólfur spilaði fyrstu 69 mínúturnar í liði Kristiansund.

Þá gerðu Adam Örn Arnarson og félagar í Tromsø ekki góða ferð til Skien, þar sem liðið mætti Odds Ballklubb.

Adam Örn, sem lék fyrstu 72. mínúturnar í liði Tromsø, og liðsfélagar hans þurftu að sætta sig við 0:3 tap.

Mushaga Bakenga skoraði tvö marka Odds og Joshua Kitalano eitt.

Ari og Valdimar sitja sem fastast á bekknum

Þá mættust Strømsgodset og Sandefjord í Íslendingaslag. Það var þó aðeins einn Íslendingur sem tók þátt í leiknum.

Það var Viðar Ari Jónsson, sem lék allan leikinn fyrir Sandefjord.

Valdimar Þór Ingimundarson og Ari Leifsson sátu hins vegar allan tímann á varamannabekknum þegar Strømsgodset vann öruggan 4:0 sigur.

Fred Friday skoraði tvö marka Strømsgodset og Duplexe Tchamba og Johan Hove gerðu hvor sitt markið.

Valdimar hefur komið við sögu í sex af leikjunum átta sem liðið hefur spilað en hefur spilað 205 mínútur alls og verið ónotaður varamaður í síðustu tveimur leikjum.

Þá hefur Ari aðeins tekið þátt í einum deildarleik á tímabilinu, þegar hann kom inn á í aðeins 12 mínútur.

mbl.is