Sigurmarkið kom á tíundu mínútu uppbótartímans

Casemiro fagnar sigurmarkinu.
Casemiro fagnar sigurmarkinu. AFP

Brasilía er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki B-riðils í Suður-Ameríkukeppninni í fótbolta en liðið vann hádramatískan 2:1-sigur á Kólumbíu í nótt. Leikið var á Estádio Nilton Santos-vellinum í Ríó.

Luis Días kom Kólumbíu yfir með glæsilegu marki á 10. mínútu. Días kláraði með glæsilegri bakfallsspyrnu eftir fyrirgjöf frá Juan Cuadrado. Markið reyndist það eina í fyrri hálfleik.

Brasilíumenn gáfust ekki upp því Roberto Firmino jafnaði á 78. mínútu. Kólumbíumenn voru allt annað en sáttir við markið þar sem boltinn fór í dómarann Nestor Pitana í aðdragandanum, en þrátt fyrir það fékk markið að standa.

Heimamenn voru ekki hættir því Casemiro skoraði sigurmarkið á tíundu mínútu uppbótartímans með skalla eftir horn og þar við sat.

Brasilía er í toppsæti riðilsins með níu stig og Kólumbía í öðru sæti með fjögur stig, eins og Perú í þriðja sæti.

mbl.is