England sló Þýskaland úr leik

England er komið í átta liða úrslit Evrópumóts karla í knattspyrnu eftir sigur gegn Þýskalandi í sextán liða úrslitum keppninnar á Wembley í London í dag.

Leiknum lauk með 2:0-sigri enska liðsins en staðan að loknum fyrri hálfleik var markalaus, 0:0.

Fyrri hálfleikurinn var afar bragðdaufur og það var Þjóðverjinn Timo Werner sem fékk eina færi hálfleiksins þegar hann slapp einn í gegn en Jordan Pickford varði mjög vel frá honum.

Á 75. mínútu kom Raheem Sterling Englendingum yfir eftir frábæra sókn sem hann hóf sjálfur. 

Sterling átti þá góðan sprett, sendi boltann á Harry Kane, sem lagði hann á Jack Grealish. 

Grealish sendi boltann á Luke Shaw sem átti frábæra sendingu fyrir markið á Sterling sem skoraði af stuttu færi úr teignum og staðan orðin 1:0.

Thomas Müller fékk sannkallað dauðafæri til að jafna metin fyrir Þjóðverja sex mínútum síðar þegar hann slapp einn í gegn en skot hans fór rétt fram hjá markinu.

Það var svo Harry Kane sem innsiglaði sigur enska liðsins þegar hann skallaði boltann í netið af stuttu færi eftir frábæra fyrirgjöf Grealish og lokatölur því 2:0-fyrir England.

England mætir annaðhvort Svíþjóð eða Úkraínu í átta liða úrslitum hinn 3. júlí í Róm á Ítalíu en Þjóðverjar eru úr leik.

England 2:0 Þýskaland opna loka
90. mín. Leon Goretzka (Þýskaland) á skot framhjá Goretzka með skot sem fer af Havertz og aftur fyrir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert