Samningur Messi rennur út á miðnætti

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP

Eftir miðnætti gæti sú staða komið upp að Lionel Messi, sem sex sinnum hefur hlotið gullboltann fyrir frammistöðu sína með Argentínu og Barcelona, verði samningslaus sem knattspyrnumaður. 

Ekki er í það minnsta vitað til þess að Messi hafi samþykkt samningstilboð FC Barcelona en þar á bæ eru menn engu að síður bjartsýnir á að sú verði niðurstaðan. 

Messi hefur nú þegar verið í tvo áratugi hjá félaginu en fyrir ári gekk mikið á þegar hann virtist vera að yfirgefa félagið. Messi hefur lýst því yfir í viðtölum að honum þyki sjarmerandi tilhugsun að flytja til Bandaríkjanna. 

Barcelona hefur lent í fjárhagserfiðleikum en laun Messi voru um tíma afar stór kostnaðarliður. Talið er að Messi sé nokkuð sáttur um þessar mundir hjá Barcelona þótt félagið hafi ekki fjárshagslega burði til að borga háar upphæðir fyrir leikmenn. Koma Sergio Agüero frá Manchester City þykir líkleg til að hjálpa til við að halda Messi hjá félaginu.  

Sem stendur er Lionel Messi í Brasilíu þar sem Copa America er í fullum gangi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert