Spennt að byrja aftur á núllpunkti

Glódís Perla Viggósdóttir skrifaði undir þriggja ára samning við Bayern …
Glódís Perla Viggósdóttir skrifaði undir þriggja ára samning við Bayern München. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er risastórt klúbbur með mikla sögu og það er frábært að fá tækifæri til þess að vera hluti af þessu félagi,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og nýjasti leikmaður Bayern München, í samtali við mbl.is.

Glódís Perla skrifaði undir þriggja ára samning við Bæjara í dag en hún kemur til félagsins frá sænska stórliðinu Rosengård þar sem hún hefur leikið frá árinu 2017.

„Það er eitthvað síðan ég heyrði fyrst af áhuga þeirra og svo náttúrulega lendum við á móti þeim í átta liða úrslitum í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð. Þannig að það var í raun bara eins þetta væri skrifað í skýin ef svo má segja.

Strax eftir einvígið í Meistaradeildinni fer svo af stað ákveðið ferli. Þeir fara í viðræður við Rosengård og þegar allt var orðið klárt, félaganna á milli, þá gengu hlutirnir nokkuð hratt og örugglega fyrir sig,“ sagði Glódís.

Glódís Perla hefur leikið með Rosengård frá árinu 2017 og …
Glódís Perla hefur leikið með Rosengård frá árinu 2017 og varð Svíþjóðarmeistari með liðinu árið 2019. Ljósmynd/FC Rosengård

Frábær þróun

Glódís Perla átti ár eftir af samningi sínum við Rosengård og því er þýska félagið að kaupa miðvörðinn.

„Það er auðvitað plús að félagið hafi ákveðið að kaupa mig og sýnir mér að þeir vildu virkilega fá mig. Á sama tíma er þetta þróunin í kvennaboltanum, það er að segja að leikmenn séu að skrifa undir lengri samninga með það fyrir augum að þegar þeir eru seldir þá fá klúbbarnir eitthvað borgað fyrir leikmenn.

Mér finnst þessi þróun frábær og ég er virkilega sátt að yfirgefa Rosengård, vitandi það, að félagið fékk einhvern pening fyrir mig. Ég var aðeins farin að finna það hjá sjálfri mér að mig langaði í eitthvað aðeins meira og ég væri komin aðeins lengra. Ég var tilbúin í næsta skref og ég er nokkuð viss um að ég eigi eftir að njóta mín vel í Þýskalandi.“

Glódís Perla hélt út í atvinnumennsku frá Stjörnunni árið 2015.
Glódís Perla hélt út í atvinnumennsku frá Stjörnunni árið 2015. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lærdómsríkur tími

Glódís er uppalin hjá HK, síðar HK/Víkingi, en gekk til liðs við Stjörnuna árið 2012 áður en hún hélt út í atvinnumennsku til Eskilstuna í Svíþjóð þar sem hún lék í tvö ár áður en hún samdi við Rosengård.

„Tíminn í Svíþjóð hefur verið ótrúlega lærdómsríkur. Ég er búin að spila fyrir lið sem er ekki topplið og svo lið þar sem ekkert annað en sigur kemur til greina. Ég hef lært heilan helling og hef þroskast ótrúlega mikið, bæði sem leikmaður og manneskja.

Það er mjög fín umgjörð í Svíþjóð en þetta er í allt öðrum gæðaflokki hjá Bayern München, að öllu leyti. Það verður ótrúlega gaman að fá að upplifa það að vera með allt sem maður þarf  einhvernvegin á einum stað.“

Glódís Perla hefur verið lykilkona í íslenska landsliðinu undanfarin ár.
Glódís Perla hefur verið lykilkona í íslenska landsliðinu undanfarin ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil samkeppni

Glódís hefur verið fastakona í íslenska landsliðinu undanfarin ár og á að baki 93 A-landsleiki en íslenska liðið er á leið á sitt þriðja Evrópumót næsta sumar sem fer fram á Englandi.

„Ég er á leið í undirbúningstímabil með Bayern og svo vonandi tekst mér að vinna mér inn sæti í liðinu. Markmiðið er að spila eins mikið og kostur er og vera í frábæru standi þegar Evrópumótið hefst á Englandi næsta sumar.

Það er líka gaman að fá nýja áskorun ef svo má segja. Ég er búin að vera lengi í Rosengård í lykilhlutverki og samkeppnin hefur kannski ekki verið neitt svakalega mikið. Ég er þess vegna mjög spennt að byrja aftur á ákveðnum núllpunkti og þurfa vinna mér einn sæti í liðinu á nýjan leik,“ bætti Glódís við í samtali við mbl.is.

Glódís Perla er annar Íslendingurinn í herbúðum Bayern en Karólína …
Glódís Perla er annar Íslendingurinn í herbúðum Bayern en Karólína Lea Vilhjálmsdóttir gekk til liðs við þýska félagið í janúar á þessu ári. Ljósmynd/Bayern München

Skýr markmið

Glódís Perla ræddi einnig við heimasíðu Bayern München eftir undirskriftina þar sem hún ræddi framtíðarmarkmið sín með félaginu.

„Bayern er félag sem hefur náð frábærum árangri í gegnum tíðina og ég vonast til þess að hjálpa félaginu að gera ennþá betur.

Markmið mín eru skýr; ég ætla mér að verða Þýskalandsmeistari með liðinu og fara eins langt og mögulegt er í Meistaradeildinni,“ sagði Glódís meðal annars í samtali við heimasíðu Bayern München.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert