Ef þið níðist á einum níðist þið á okkur öllum

Enska landsliðið og leikmannasamtökin þar í landi standa þétt saman.
Enska landsliðið og leikmannasamtökin þar í landi standa þétt saman. AFP

Leikmannasamtök atvinnumanna í knattspyrnu á Englandi hafa sent frá sér harðorða yfirlýsingu vegna þess hræðilega kynþáttaníðs sem nokkrir leikmenn enska landsliðsins hafa orðið fyrir.

Marcus Rashford, Jadon Sancho og Bukayo Saka klúðruðu allir vítaspyrnum sínum í tapi Englands gegn Ítalíu í úrslitaleik Evrópumótsins í gærkvöldi, og hafa í kjölfarið allir fengið holskeflu af ljótum skilaboðum.

Allir eru þeir dökkir á hörund og því eru skilaboðin allflest tengd kynþætti þeirra.

Leikmannasamtökunum þykir nú nóg komið og krefjast þess að samfélagsmiðlar taki harðar á málum sem þessum.

„Samfélagsmiðlar verða að banna alla aðganga sem hafa gerst brotlegir og safna fyrirbyggjandi sönnunargögnum til að afhenda lögreglunni svo unnt sé að sækja þessa aðila til saka,“ sagði í yfirlýsingunni.

Þar var enska landsliðinu hrósað sérstaklega.

„Síðastliðnar vikur hefur enska landsliðið okkar sýnt af sér hugrekki og klassa, bæði innan og utan vallar. Öðru fremur hefur liðið sýnt okkur hvernig besta mögulega England getur litið út.“

Skilaboðin til netníðinganna voru svo skýr:

„Þegar þið níðist á einhverjum leikmanna okkar níðist þið á okkur öllum. Kynþáttaníð veldur áföllum. Það mun hafa áhrif á leikmennina sem það beinist gegn, liðsfélaga þeirra og við vitum að það mun einnig hafa áhrif á alla jafningja þeirra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert