Leikmennirnir urðu fyrir skelfilegu kynþáttaníði

Marcus Rashford var í öngum sínum eftir að markmaður Ítala …
Marcus Rashford var í öngum sínum eftir að markmaður Ítala varði víti hans. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fordæmdi í dag skelfilegt kynþáttaníð á samfélagsmiðlum í garð leikmanna enska karlalandsliðsins í fótbolta sem ekki skoruðu í vítaspyrnu í úrslitaleik á móti Ítalíu í úrslitum Evrópumeistaramótsins sem fóru fram í gærkvöldi. 

„Enska liðið á skilið að vera lofað sem hetjur, ekki beitt kynþáttaníði á samfélagsmiðlum,“ skrifaði Johnson á Twitter. 

„Þeir sem bera ábyrgð á þessu hræðilega ofbeldi ættu að skammast sín.“

Jadon Sancho var heldur betur ekki sáttur við að hafa …
Jadon Sancho var heldur betur ekki sáttur við að hafa ekki náð að skora. AFP

Sendu apa og kynþáttaníð

Marcus Rashford, Jadon Sancho og Bukayo Saka skoruðu ekki úr vítaspyrnum sínum í gær og urðu þeir fyrir kynþáttaníði á Twitter- og Instagram-síðum sínum í kjölfarið. Þar sendi fjöldi fólks þeim apa-lyndistákn (e. emoji) og aðrir sendu þeim niðrandi skilaboð og notuðu kynþáttafordóma til þess að kenna þremenningunum um ósigurinn.

Lögreglan í Lundúnum sagði í tísti í dag að hún væri meðvituð um stöðuna. „Þetta er ofbeldi og er óafsakanlegt, þetta verður ekki liðið og við munum rannsaka málið,“ segir í tísti lögreglunnar. 

Bukayo Saka ásamt þjálfara enska liðsins, Gareth Southgate, eftir taopið …
Bukayo Saka ásamt þjálfara enska liðsins, Gareth Southgate, eftir taopið í gær. AFP

Krefst þess að samfélagsmiðlar grípi inn í

Tom Tugendhat, þingmaður Íhaldsflokksins, hefur krafist þess að samfélagsmiðlar grípi til aðgerða. 

„Þeir sem þetta skrifa eru aumkunarverðir og eiga skilið að mæta afleiðingunum. Þeir sem birta svona ummæli [þ.e. samfélagsmiðlar] eru að hagnast á hatri,“ skrifaði Tugendhat á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert