„Pabbi er vanur þessu, ég er vanur þessu“

„Ég held, verandi enskur, að við séum vön þessu því miður,“ sagði grátklökkur en hlæjandi stuðningsmaður enska landsliðsins eftir ósigurinn gegn Ítalíu í úrslitaleik EM í fótbolta í rigningunni í London í gærkvöldi. „Pabbi er vanur þessu, ég er vanur þessu núna held ég. En þetta tekur á.“ 

England laut í lægra haldi gegn Ítölum eftir vítaspyrnukeppni í úrslitaleiknum og fótboltinn kom því ekki heim í gær líkt og vonir stóðu til. England hefur aðeins einu sinni sigrað á stórmóti en það var á HM 1966. 

„Ég er miður mín, algjörlega miður mín. En þeir skráðu sig í sögubækurnar, komu okkur í úrslit í fyrsta sinn í 55 ár, ég get ekki annað en verið stolt af þeim fyrir árangurinn,“ sagði stuðningskona liðsins eftir úrslitin í gær.

Annar stuðningsmaður, á sextugsaldri, var þó ekki búinn að gefa upp vonina þó að hann hafi ítrekað þurft að fylgjast með sínum mönnum tapa á lífsleiðinni. „Það þýðir ekkert að gráta yfir þessu, það gengur betur næst, heimsmeistaramótið!“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert