Fyrst vítakeppni, síðan framlengt

Gareth Southgate huggar Bukayo Saka á Wembley um liðna helgi.
Gareth Southgate huggar Bukayo Saka á Wembley um liðna helgi. AFP

Nái hugmyndir Braga V. Bergmann, sem hann hefur kynnt fyrir Knattspyrnusambandi Evrópu, fram að ganga myndi vítakeppni á HM og EM fara fram á undan framlengingu
í leikjum og úrslitin aðeins gilda ef hvorugu liðinu tekst að knýja fram sigur. Ávinningurinn er augljós: Draga myndi úr því að vítaskyttur verði gerðar að sektarlömbum.

„Nú þegar þrír góðir einstaklingar, enskir og dökkir á hörund, hafa orðið fyrir heiftarlegum árásum á samfélagsmiðlum eftir úrslitaleik EM er mál að linni! UEFA og FIFA verða að fara að hætta fyrirfram skipulögðum „mannaveiðum“, þ.e. að dæma einn eða fleiri einstaklinga til að verða sektarlamb eða blóraböggull eins og þessi virtu alheimssambönd hafa gert í áratugi. Þau hafa það í hendi sér að EM 2020 verði síðasta skráða tilvikið um slíkt aðkast eða einelti.“

Þetta segir Bragi V. Bergmann sem sjálfur hefur velt fyrir sér hvernig leiða eigi leiki á stórmótum til lykta með öðrum og mannúðlegri hætti. Braga er málið skylt en hann var FIFA-dómari í 13 ár, frá 1991-2003, en fór þá af lista vegna aldurs en dæmdi í efstu deild til 2006. Hann hefur verið eftirlitsmaður dómara nær allar götur síðan og setið í Dómaranefnd KSÍ í mörg ár og er þar enn.

„Ef við lítum á mannkynssöguna, virðast margir hafa unun af því að sjá menn tekna af lífi, ætli þetta sé ekki bara angi á því viðhorfi, en mér hefur lengi verið umhugað um að losna við þennan grimma þátt úr knattspyrnunni. Ég dæmdi varla leik í bikar öll árin mín í efstu deildum án þess að leikurinn færi í framlengingu og gjarnan vítaspyrnukeppni. Fljótlega skaut hugmyndinni að P-Play niður í kollinn á mér en ég lét hana gerjast árum saman,“ segir Bragi en P-Play er stytting á Penalty-Play eða Positive-Play eða Power-Play. „Það er smekksatriði.“

Bragi V. Bergmann í blíðunni á Akureyri í vikunni.
Bragi V. Bergmann í blíðunni á Akureyri í vikunni. Ljósmynd/Konráð Jónsson.


Einföld en skilvirk breyting

En hvað er P-Play? Í því felst einföld en mjög skilvirk breyting á núverandi fyrirkomulagi. Ekki þarf að breyta neinum lögum, aðeins reglum og uppbyggingu leikjanna.
Breytingin yrði á þennan veg: Skilji lið jöfn að loknum venjulegum leiktíma verður fimm mínútna hlé, líkt og þekkist í dag. Síðan fer fram vítakeppni. Þegar úrslit liggja fyrir í henni verður annað fimm mínútna hlé. Að því loknu hefst framlenging. Nái hvorugt liðið að knýja fram sigur í henni þá gilda úrslitin úr vítakeppninni.

Vítakeppni þykir gott sjónvarpsefni og Bragi segir P-Play gera það að verkum að meira verði um þær og fyrir vikið aukist vinsældir knattspyrnunnar. Þá aukist líkurnar á því að leiðinlegar og tíðindalausar framlengingar heyri sögunni til – liðið sem tapar vítakeppninni verður að sækja til sigurs. Og það besta og mannúðlegasta af öllu: Sá leikmaður sem „klikkaði“ á lokaspyrnunni og liðsfélagar hans hafa þrjátíu mínútur til að bæta upp fyrir mistökin. Misheppnuð vítaspyrna er ekki lengur lokaaugnablik leiksins og brennandi kastljósið beinist ekki að einum blóraböggli. Liðið sem heild ber ábyrgðina.

Hann segir pælinguna einnig áhugaverða út frá markaðssjónarmiði en hægt væri að koma fyrir auglýsingatímum á undan og eftir vítakeppninni. „Það var svo sem ekki það sem rak mig af stað, en hugmyndin getur sannarlega verið verðmæt í þeim skilningi líka.“
Spurður hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að liðið sem vinni vítakeppnina verði bara í skotgröfunum í framlengingunni, svarar Bragi hiklaust neitandi. „Nei, ég hef engar áhyggjur af því. Eins og reglurnar eru nú þá þorir hvorugt liðið oftar en ekki að taka áhættu og þau hanga bara á boltanum en yrði þessu breytt þá yrði annað liðið að gera það sem hlýtur að brjóta leikinn upp og auka hraðann.“

Hlutirnir fóru að gerast

Eftir að hann hætti að dæma fór Bragi að leita leiða til að tryggja sér einkaleyfi á hugmyndinni og komst að því eftir langt ferli að það er nánast ógerlegt að fá einkaleyfi á hugmynd þegar ekki er um neitt „product“ að ræða. „Eftir að ég fékk Ólaf Rúnar Ólafsson, lögmann og fyrrverandi sveitarstjóra í Eyjafjarðarsveit, til að aðstoða mig, fóru hlutirnir að gerast. Allir sem komu að verkefninu skrifuðu undir yfirlýsingu um 100% trúnað og framleiðsluferlið gat hafist. Geimstofan á Akureyri, Ólafur Númason og Arnar Sigurðsson, vann allt markaðsefni með mér, merki P-Play, bækling, bréfsefni o.s.frv. sem og kynningarmyndband. Vilhjálmur, sonur minn og vandræðaskáld, las textann inn á myndbandið og nokkrir aðrir komu að einstökum þáttum,“ segir Bragi.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, fékk P-Play pakkann í hendur 2014 en á þeim tíma var Michel Platini forseti sambandsins. Þess má geta að honum brást sjálfum bogalistin í vítakeppni milli Frakka og Brasilíumanna á HM í Mexíkó 1986 og ætti því að tengja við téðar tilfinningar, enda þótt hans lið hafi farið með sigur af hólmi þann daginn.

Bréf Platinis til Braga.
Bréf Platinis til Braga.


Platini sendi Braga þakkarbréf þar sem hann staðfesti höfundarrétt hans að P-Play. Í bréfinu kemur fram að Platini hafi sent pakkann á IFAB-nefndina – International Football Assosiation Board – en hún er sú „stofnun“ sem ein hefur heimild til að breyta knattspyrnulögum og -reglum. „Og þar situr P-Play enn,“ segir Bragi en Platini þakkaði honum sérstaklega fyrir áhuga hans og þá alúð og tíma sem hann hefði augljóslega lagt í verkefnið.

Platini settur af

Bragi var óheppinn að því leyti að Platini var settur af örskömmu eftir þetta vegna spillingarmála. „Sennilega hafa öll mál sem hann mælti með og vildi fylgja eftir lent í „neðstu hillunni“ hjá IFAB. Þar að auki er IFAB-nefndin nær eingöngu skipuð Bretum, þ.e. Englendingum og Skotum, og ég er ekki viss um að þeir vilji lifa með því að einhver Íslendingur færi þeim snilldarlausn á langvarandi vandamáli upp í hendurnar. Þessi lausn er enn brýnni eftir að reglan um tvöfalt vægi útivallarmarka var felld úr gildi nýverið. Þar með fáum við væntanlega enn fleiri leiðinlegar framlengingar, fleiri vítaspyrnukeppnir og fleiri

Michel Platini, fyrrverandi forseti UEFA.
Michel Platini, fyrrverandi forseti UEFA. AFP


sektarlömb sem verða að bera þunga byrði ævilangt,“ segir Bragi.

– Hefurðu rukkað UEFA eitthvað um frekari svör?

„Nei, það hef ég ekki gert. Það er einmitt ástæðan fyrir því að ég kynni þessa hugmynd loksins opinberlega – til að fá umræðu um hana. Falli hugmyndin í frjóa jörð hlýtur UEFA að fá veður af því. Umræðan um galla vítakeppna er mjög hávær úti um allan heim núna – ekki síst á Bretlandseyjum – en svo gleymist þetta milli móta.“

Ekki hvort, heldur hvenær

Bragi er ekki í vafa um að P-Play verði virkjað, það sé spurning um hvenær en ekki hvort. Hann sér fyrir sér að heppilegt yrði að byrja í úrslitakeppnum yngri landsliða og sjá hvort það gæfi ekki góða raun. Það væri líka vel hægt að virkja P-Play í lokakeppni HM á næsta ári.

„Við fáum fleiri vítaspyrnukeppnir, fjörugar framlengingar og – umfram allt – að það verði ekki fleiri sektarlömb á borð við ungu Englendingana þrjá, Mbappé, Olmo og Morata, Svisslendingana þrjá og auðvitað Gareth Southgate frá fyrri tíma, sem var púað á á öllum leikvöllum í Englandi í heilt ár á sínum tíma eftir að hann klúðraði úrslitavítaspyrnu á EM 1996. Ég las einu sinni að hann hefði íhugað að leggja skóna á hilluna á þeim tímapunkti. Að létta byrðar þessara manna er langstærsti ávinningurinn af P-Play. Aumingja Southgate – hann klúðraði aftur vítaspyrnukeppni fyrir Englendinga, nú af varamannabekknum. Hversu sanngjarnt er það, að leggja slíkt á einn mann tvívegis á ævinni?“

Hér er hlekkur á kynningarmyndbandið:

https://fremri-my.sharepoint.com/:f:/g/personal/bragi_fremri_is/Emi-4NWBg4lNmRFSAeMkZwABu-0YlG7G-u6Knx3-BJ0a8g?e=9gxUeb

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »