„Þessi frétt er uppspuni frá rótum“

Virgil van Dijk, fyrirliði hollenska landsliðsins í knattspyrnu.
Virgil van Dijk, fyrirliði hollenska landsliðsins í knattspyrnu. AFP

Virgil van Dijk, leikmaður Liverpool og fyrirliði hollenska landsliðsins í knattspyrnu, segir ekkert hæft í fréttum þess efnis að hann ásamt nokkrum öðrum leikmönnum hollenska liðsins mótmæli áætlaðri ráðningu Louis van Gaals sem nýs landsliðsþjálfara harðlega.

Simon Mullock hjá sunnudagsútgáfu breska blaðsins Daily Mirror fullyrti þetta í frétt sem birtist í morgun en van Dijk var fljótur að vísa því sem kemur fram í henni til föðurhúsanna.

„Þessi frétt er uppspuni frá rótum. Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt fyrir blaðamenn að segja sannleikann og ekki bara skálda eitthvað upp. Skammastu þín herra Mullock,“ skrifaði van Dijk á twitteraðgangi sínum.

Í fréttinni var van Dijk sagður leiða „uppreisn“ gegn ráðningu van Gaals ásamt nokkrum öðrum nokkrum „uppreisnarmönnum“ í liði Hollands, þar á meðal varafyrirliðanum Georginio Wijnaldum, fyrrverandi samherja hans hjá Liverppol.

Mullock fullyrti í fréttinni að van Dijk og nokkrir liðsfélaga hans væru „brjálaðir“ yfir ákvörðuninni og að þeir vildu heldur að Henk ten Cate yrði ráðinn.

Sem áður segir þvertekur van Dijk fyrir það sem kemur fram í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert