Arnór skoraði tvö fyrir framan Beckham

Arnór Ingvi, lengst til vinstri, fagnar marki í dag.
Arnór Ingvi, lengst til vinstri, fagnar marki í dag. Ljósmynd/New England Revolution

New England Revolution er með bestan árangur allra liða í MLS-deildinni í fótbolta í Bandaríkjunum eftir 5:0-stórsigur á útivelli gegn Inter Miami, liðinu sem David Beckham setti á laggirnar, í nótt.

Arnór Ingvi Traustason reyndist Beckham og félögum erfiður því hann skoraði tvö af þremur fyrstu mörkum New England í fyrri hálfleiknum. Mörkin voru þau fyrstu sem Arnór skorar fyrir New England í deildinni en hann kom til þess frá Malmö í Svíþjóð fyrr á þessu ári.

New England er með 30 stig eftir 15 leiki, einu stigi meira en Seattle sem er í öðru sæti í heildarstigakeppni deildarinnar. Í Austurdeildinni er New England með sjö stiga forskot á Philadelphia sem er í öðru sæti. Inter Miami er í neðsta sæti í heildarstigakeppninni með aðeins átta stig.

Í New York vann New York City 1:0-sigur á Montreal. Guðmundur Þórarinsson lék fyrstu 83 mínúturnar með New York en Róbert Orri Þorkelsson var ekki í leikmannahópi Montreal. Montreal er í fimmta sæti Austurdeildarinnar með 22 stig og New York í sjöunda sæti með 20 stig.  

mbl.is