Góðir sigrar sænsku Íslendingaliðanna

Jón Guðni Fjóluson, til hægri, fagnaði sigri með Hammarby í …
Jón Guðni Fjóluson, til hægri, fagnaði sigri með Hammarby í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sænsku Íslendingaliðin Hammarby og Elfsborg  standa vel að vígi í 2. umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta eftir góða sigra í fyrri leikjunum á heimavöllum sínum í dag.

Hammarby tók á móti Maribor frá Slóveníu í Stokkhólmi og sigraði 3:1. Astrik Seljmani var hetja Hammarby en hann skoraði öll þrjú mörkin, það síðasta úr vítaspyrnu á 87. mínútu. Jón Guðni Fjóluson lék allan leikinn í vörn Hammarby.

Elfsborg tók á móti Milsami Orhei frá Moldóvu á heimavelli sínum í Borås og vann stórsigur, 4:0. Staðan var 3:0 í hálfleik og í seinni hálfleiknum voru þrír leikmenn Moldóvanna reknir af velli. Gegn átta mótherjum skoraði Elfsborg þó aðeins eitt mark í viðbót og lokatölur urðu 4:0. 

Hákon Rafn Valdimarsson er nýkominn til liðs við Elfsborg frá Gróttu og hann var varamarkvörður liðsins í leiknum.

mbl.is