Sektað fyrir níðsöngva gegn Íslandi

Alan Pulido, Orri Sigurður Ómarsson og Viðar Ari Jónsson í …
Alan Pulido, Orri Sigurður Ómarsson og Viðar Ari Jónsson í leik Mexíkó og Íslands í Las Vegas fyrir fjórum árum. Mexíkó vann þann leik 1:0. AFP

FIFA sektaði í gær mexíkóska knattspyrnusambandið um 109 þúsund dollara, eða 13,6 milljónir króna, vegna hegðunar stuðningsmanna er Mexíkó og Ísland áttust við í vináttuleik í Texas í maílok.

Hópur stuðningsmanna Mexíkó söng níðsöngva gegn samkynhneigðum í hvert skipti sem Rúnar Alex Rúnarsson tók markspyrnu í leiknum.

Dómari leiksins stöðvaði leikinn í stutta stund vegna söngvanna, áður en hann var að lokum kláraður. Mexíkó vann 2:1 eftir að Birkir Már Sævarsson hafði komið Íslandi í 1:0.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stuðningsmenn Mexíkó koma sér í klandur, en knattspyrnusambandið þar í landi hefur sextán sinnum á undanförnum árum þurft að borga sektir vegna þeirra.

mbl.is