Arnór lagði upp mark í sigurleik

Arnór Ingvi Traustason, til hægri, í leik með New England …
Arnór Ingvi Traustason, til hægri, í leik með New England Revolution gegn Columbus Crew. AFP

Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu, fylgdi eftir góðri frammistöðu gegn Inter Miami á dögunum og lagði upp mark í sigurleik New England Revolution í bandarísku MLS-deildinni í kvöld.

New England tók á móti kanadíska liðinu CF Montréal og sigraði 2:1. Arnór lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir argentínska framherjann Gustavo Bou, sem gerði  bæði mörk New England í leiknum. Arnór lék fyrstu 63 mínúturnar í kvöld.

Montréal keypti á dögunum varnarmanninn unga Róbert Orra Þorkelsson af Breiðabliki en hann var ekki í leikmannahópi liðsins. 

New England styrkti enn frekar stöðu sína á toppi Austurdeildar MLS og náði þar sjö stiga forystu með sigrinum, er með 33 stig eftir 16 leiki. Montreal er í sjöunda sæti Austurdeildar með 22 stig.

New York City, lið Guðmundar Þórarinssonar, vann stórsigur á Orlando City, 5:0, og er í fimmta sæti Austurdeildar með 23 stig. Guðmundur sat á varamannabekknum allan leikinn í kvöld.

mbl.is