Elías á leiðinni til Frakklands

Elías Már Ómarsson fagnar marki í leik með Excelsior.
Elías Már Ómarsson fagnar marki í leik með Excelsior. Ljósmynd/Excelsior

Elías Már Ómarsson knattspyrnumaður frá Keflavík er að ganga til liðs við franska B-deildarfélagið Nimes sem kaupir hann af Excelsior í Hollandi. 

Talið er að kaupverðið sé 70-80 milljónir íslenskra króna en Elías á eitt ár eftir af samningi sínum við Excelsior.

Ólafur Garðarsson umboðsmaður staðfesti við mbl.is að Elías væri í Frakklandi og líklegast væri að gengið yrði frá kaupunum á næstu einum til tveimur sólarhringum.

Nimes féll úr frönsku 1. deildinni í vor, endaði þá í 19. sæti af tuttugu liðum, en stefnir beint aftur upp í efstu deild á ný, enda gamalgróið og stórt félag með mikla hefð á bak við sig. Liðið er frá samnefndri borg á frönsku Rivíerunni, við strönd Miðjarðarhafsins.

Elías Már er 26 ára gamall og hefur leikið undanfarin þrjú tímabil með Excelsior. Fyrsta tímabilið í A-deildinni þar sem hann skoraði átta mörk í 25 leikjum en hann hefur síðan verið afar marksækinn með liðinu í B-deildinni. Hann skoraði 12 mörk í 28 leikjum tímabilið 2019-20 og á síðasta tímabili varð Elías næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 22 mörk í 37 leikjum.

Hann á að baki níu A-landsleiki og lék 33 leiki með yngri landsliðum Íslands á sínum tíma.

Elías lék með meistaraflokki Keflavíkur frá 2012 til 2014, síðan í hálft annað ár með Vålerenga í Noregi og í tvö ár með Gautaborg í Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert