Vonast til að áhugi Chelsea sé bara orðrómur

Erling Haaland
Erling Haaland AFP

Norski knattspyrnumaðurinn Erl­ing Braut Haaland hefur gert lítið úr sögusögnum þess efnis að Chelsea hafi boðið 175 milljónir evra í hann en hann er á mála hjá þýska liðinu Dortmund.

Sky í Þýskalandi sagði frá því fyrir nokkrum dögum að Chelsea hefði gert risatilboð í framherjann unga sem þykir einn sá efnilegasti í heimi. Chel­sea átti gott tíma­bil þar sem það vann til að mynda Meist­ara­deild Evr­ópu en átti stund­um í vand­ræðum með að skora mörk. Svo virðist sem norski framherjinn hafi ekki mikinn áhuga á að færa sig um set.

„Ég hef ekki mikið um þetta að segja, ég á þrjú ár eftir af samningi mínum og nýt þess að vera hjá Dortmund,“ sagði hann við blaðamenn er leikmenn Dortmund mættu til æfinga á undirbúningstímabilinu í Sviss.

„Þetta eru of miklir peningar fyrir bara eina manneskju, ég vona að þetta sé bara orðrómur,“ bætti sá norski við en hann skoraði 27 deildarmörk síðasta vetur í 28 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert