Björn með á ný og Molde sló út Servette

Björn Bergmann Sigurðarson á landsliðsæfingu.
Björn Bergmann Sigurðarson á landsliðsæfingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Bergmann Sigurðarson lék á ný með norska liðinu Molde eftir tæplega þriggja mánaða fjarveru þegar það sló Servette frá Sviss út í annarri umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld.

Björn gekkst undir aðgerð á baki í maí og hafði þá aðeins komið við sögu í fyrsta leik tímabilsins með Molde en misst af þeim 13 leikjum sem liðið hefur síðan leikið í deildinni.

Hann var á meðal varamanna í fyrri leiknum  gegn Servette í síðustu viku en Molde vann þá glæsilegan 3:0-sigur á heimavelli. Í kvöld vann Servette 2:0 í Genf en það nægði Molde til að fara áfram. Björn kom inn á sem varamaður á 58. mínútu í leiknum í kvöld.

mbl.is