Vallarþulur sektaður fyrir ummæli um Ronaldo

Cristiano Ronaldo var úthúðað af landa sínum á Instagram.
Cristiano Ronaldo var úthúðað af landa sínum á Instagram. AFP

Fernando Saul, vallarþulur hjá portúgalska knattspyrnufélaginu Porto, hefur verið sektaður um 1.430 evrur fyrir ummæli hans í garð landa síns Cristianos Ronaldo eftir leik Porto gegn Juventus, liði Ronaldos, í Meistaradeild Evrópu í mars á þessu ári.

Saul fór hamförum á Instagram eftir leikinn þar sem hann kallaði lið Juventus „ítalska þjófa“ og landa sinn kallaði hann „svínið Ronaldo.“ Hann beit svo höfuðið af skömminni með því að segja móður Ronaldos vera tannlausa.

Portúgalska knattspyrnusambandið hefur nú skikkað Saul til að greiða Ronaldo 1.430 evrur, rúmlega 212 þúsund íslenskra króna, í miskabætur fyrir ummælin.

Samkvæmt Football Italia var það fulltrúi Sporting Lissabon, félagsins sem Ronaldo lék með á unga aldri, sem sá ummælin og lét knattspyrnuyfirvöld vita af þeim. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Saul er refsað fyrir framkomu sína en hann hefur áður verið settur í 30 daga bann sem vallarþulur. Þá öskraði hann inn á völlinn í leik Porto og Benfica að þeir Portomenn væru „þreyttir á því að vera rændir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert