Arnór lánaður til Venezia

Arnór Sigurðsson er kominn til Ítalíu.
Arnór Sigurðsson er kominn til Ítalíu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rússneska knattspyrnufélagið CSKA Moskva skýrði frá því fyrir stundu að landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson hefði verið lánaður til Venezia, nýliðanna í ítölsku A-deildinni, út komandi keppnistímabil.

Arnór hefur hins vegar framlengt samning sinn við CSKA um eitt ár og er nú samningsbundinn Moskvufélaginu til sumarsins 2024.

Arnór er 22 ára gamall Skagamaður sem CSKA keypti af Norrköping í Svíþjóð sumarið 2018 en þá hafði hann þegar leikið tvö tímabil með sænska liðinu í úrvalsdeildinni þar í landi.

Á þremur tímabilum með CSKA hefur Arnór leikið 66 leiki í rússnesku úrvalsdeildinni og skorað í þeim 11 mörk. Þá hefur hann spilað sex leiki með CSKA í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu og skorað í þeim tvö mörk og er aðeins einn þriggja Íslendinga til að skora í þeirri keppni.

Venezia, eða Feneyjar eins og borgin er ávallt kölluð á íslensku, vann sér sæti í A-deildinni eftir umspil í vor. Með liðinu leika Óttar Magnús Karlsson og Bjarki Steinn Bjarkason auk þess sem Jakob Franz Pálsson og Kristófer Jónsson hafa komið til félagsins á síðustu vikum og munu leika með unglingaliðum þess.

Fyrsti leikur Venezia á tímabilinu er gegn SPAL í bikarkeppninni á heimavelli laugardaginn 14. ágúst en fyrsti leikur í A-deildinni er gegn Napoli á útivelli sunnudaginn 22. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert