Lést aðeins 16 ára gamall

Noah Gesser er látinn, aðeins 16 ára að aldri.
Noah Gesser er látinn, aðeins 16 ára að aldri. Ljósmynd/Ajax

Noah Gesser, 16 ára gamall framherji hollenska knattspyrnufélagsins Ajax, lést í bílslysi í Utrecht í Hollandi í gærkvöldi. Eldri bróðir hans, 18 ára gamall, lést einnig í slysinu.

Bróðir hans ók þá á leigubíl með þeim afleiðingum að þeir létust, en bílstjóri leigubílsins slapp með minni háttar meiðsli.

Gesser, sem lék um tíma með Kristian Nökkva Hlynssyni í unglingaliði Ajax, þótti mikið efni og skoraði 13 mörk fyrir unglingaliðið á síðasta tímabili.

Hann gekk til liðs við Ajax fyrir þremur árum frá Alphense.

„Ajax hafa borist þær hræðilegu fréttir að Noah Gesser sé látinn. Hinn 16 ára gamli unglingaliðsleikmaður lést í bílslysi með bróður sínum á föstudagskvöld.

Við munum ræða þessar hræðilegu fréttir þegar Ajax 1 og Young Ajax spila æfingaleiki í dag. Við verðum með einnar mínútu þögn fyrir leikina og leikmenn Ajax munu spila með sorgarbönd. Auk þess verður flaggað í hálfa stöng á íþróttasvæði okkar.

Þessi dapurlegi atburður leggst afar þungt á Ajax. Félagið sendir styrk til allra ástvina bræðranna er það fæst við þennan óviðjafnanlega missi,“ sagði í yfirlýsingu frá Ajax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert