Guðlaugur fyrirliði í öruggum sigri

Guðlaugur Victor Pálsson var fyrirliði Schalke í dag.
Guðlaugur Victor Pálsson var fyrirliði Schalke í dag. Ljósmynd/Schalke

Guðlaugur Victor Pálsson fór fyrir sínum mönnum í Schalke þegar hann bar fyrirliðabandið í afar sterkum 3:0-útisigri gegn Holstein Kiel í þýsku B-deildinni í knattspyrnu í dag.

Schalke, sem féll úr þýsku 1. deildinni á síðasta tímabili, hóf tímabilið afar illa þegar liðið tapaði 1:3 á heimavelli gegn Hamburg.

Í dag var sigurinn hins vegar aldrei í hættu eftir að Simon Terodd hafði skorað strax á annarri mínútu og svo aftur á 21. mínútu leiksins.

Í síðari hálfleik batt Marius Bülter endahnútinn á flotta frammistöðu og þriggja marka sigur staðreynd í annarri umferð B-deildarinnar.

Guðlaugur Victor er varafyrirliði Schalke og var með bandið í fjarveru Dannys Latza, sem var ekki í leikmannahópnum í dag.

Hólmbert Aron Friðjónsson var ekki í leikmannahópi Holstein Kiel í dag.

mbl.is