Ég er í smá sjokki

Freyr Alexandersson og Sævar Atli Magnússon.
Freyr Alexandersson og Sævar Atli Magnússon. Ljósmynd/Lyngby

„Þetta er miklu stærra en ég hélt. Völlurinn, starfsfólkið og aðstæður eru betri en ég átti von á. Ég kem frá litlu félagi og ég er í smá sjokki,“ sagði Sævar Atli Magnússon í viðtali sem birtist á heimasíðu danska knattspyrnufélagsins Lyngby í dag, en hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið. 

„Þeir sýndu mér mikinn áhuga. Ég sá fyrsta leikinn og það eru mikil gæði í liðinu. Það tekur eflaust tíma að komast inn í hlutina, en ég ætla mér að verða betri hérna,“ sagði Sævar sem kemur til Lyngby frá Leikni í Reykjavík. 

Freyr Alexandersson, sem var áður þjálfari Leiknis, er nú þjálfari Lyngby. „Hann stýrði Leikni frá 2013 til 2015 og gerði glæsilega hluti með Davíð Snorra. Hann var alltaf á svæðinu þegar ég var ungur.  Hann var líka aðstoðarþjálfari landsliðsins. Hann er frábær þjálfari og þetta lofar góðu.“

Sævar skoraði tíu mörk í þrettán leikjum með Leikni í sumar áður en hann skipti yfir til Danmerkur. Hann lýsir sjálfum sér sem orku- og kraftmiklum framherja sem vill skora mörk. 

„Stuðningsmennirnir munu sjá mikla orku og kraft. Ég er framherji sem vill skora mörk. Ég mun alltaf spila til að vinna,“ sagði Sævar Atli. 

mbl.is