Messi yfirgefur Barcelona

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP

FC Barcelona tilkynnti í dag að Lionel Messi sé á förum frá félaginu en hann er með lausan samning.

Barcelona tókst sem sagt ekki að semja við Messi þrátt fyrir langar samningaviðræður í sumar. Í það minnsta lítur út fyrir að samningaviðræðurnar hafi siglt í strand. 

Samningur Messi rann út 1. júlí í sumar en samkvæmt fjölmiðlum á Spáni þótti líklegt að Barcelona tækist að semja við Messi á ný. Sérstaklega þótti koma Sergio Aguero auka líkurnar á því að Messi yrði áfram. 

Félaginu og Messi virðist ekki hafa tekist að ná saman um launamál en í tilkynningu frá félaginu er talað um fjárhagslegar hindranir. 

FC Barcelona á í fjárhagserfiðleikum og Lionel Messi var á vægast sagt háum launum. Engu að síður var talið að hann myndi semja til ársins 2026 og taka á sig mikla launalækkun. 

Messi hefur tíu sinnum orðið spænskur meistari með liðinu og sjö sinnum bikarmeistari. Liðið vann einnig Meistaradeildina fjórum sinnum á tíma hans hjá félaginu, síðast 2015. 

mbl.is