Ber enginn virðingu fyrir fótboltanum á Íslandi

„Maður fann það í leikjunum gegn Real Madrid að maður var ekki alveg kominn á sama stað og þeir,“ sagði Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Ragnar lék með Köbenhavn í Danmörku tímabilið 2013-14 en þá lék liðið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

FCK var í riðli með Real Madrid, Juventus og Galatasaray en Ragnar lék alla leiki liðsins í riðlakeppninni og mætti þar mörgum af bestu knattspyrnumönnum heims.

„Maður kemst ekki á þennan stað nema æfa með þessum gæjum og spila með þeim í hverri viku,“ sagði Ragnar.

„Ég er sannfærður um það að ef einhver af okkur landsliðsmönnunum hefði fengið tækifæri til að fara í eitthvað af þessum stóru liðum þá hefðum við jafnvel getað spjarað okkur vel.

Líkurnar eru allavega miklu meiri, ef maður kemst á staðinn, en það er bara erfitt að komast þangað, sérstaklega þegar maður kemur frá Íslandi.

Við höfum oft rætt þetta strákarnir að ef maður hefði fæðst sem Belgi eða Brassi þá hefði leiðin kannski verið aðeins auðveldari því það ber enginn virðingu fyrir fótboltanum hérna heima,“ sagði Ragnar meðal annars.

Viðtalið við Ragnar í heild sinni má nálgast með því að smella hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert