Flugvél Þjóðverja tók óvænta beygju

Birkir Bjarnason sækir að marki Þjóðverja í Laugardalnum í gær.
Birkir Bjarnason sækir að marki Þjóðverja í Laugardalnum í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leikmenn þýska karlalandsliðsins í knattspyrnu áttu að snúa aftur til síns heima í nótt eftir 4:0-sigurinn gegn Íslandi í J-riðli undankeppni HM 2022 á Laugardalsvelli í gær.

Þjóðverjar lögðu af stað út á Keflavíkurflugvöll um 23-leytið í gær og flugvél þeirra hóf sig á loft um eittleytið skömmu eftir miðnætti.

Þýski miðillinn Bild greinir frá því að þegar flugvél Þjóðverja var stödd yfir Skotlandi hafi hún tekið snarpa óvænta beygju í loftinu.

Ákveðið var að stoppa í Edinborg í Skotlandi en til stóð að leikmenn þýska liðsins yrðu allir komnir til síns heima í morgun.

„Ákveðið var að stoppa í Edinborg þar sem flugvél okkar mun gangast undir nokkrar öryggisprófanir,“ segir í tilkynningu þýska knattspyrnusambandsins.

„Öllum líður vel og núna bíðum við bara í flugstöðinni í Edinborg í góðu yfirlæti eftir frekari fregnum,“ segir meðal annars í tilkynningu sambandsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert