Pelé verður útskrifaður af gjörgæslu

Brasilíska goðsögnin Pelé.
Brasilíska goðsögnin Pelé. AFP

Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Pelé er á batavegi og verður fluttur af gjörgæslu á næsta sólarhring eða tveimur eftir að hann gekkst undir skurðaðgerð þar sem æxli var fjarlægt úr ristli hans.

Æxlið uppgötvaðist við hefðbundna læknisskoðun þann 31. ágúst síðastliðinn og gekkst hinn áttræði Pelé undir aðgerðina nokkrum dögum síðar.

Hann dvelur á Albert Einstein spítalanum í Sao Paulo í heimalandinu. Dóttir hans, Kely Nascimento, sagði á Instagramaðgangi sínum gær að faðir sinn hafi það gott og finni ekki fyrir sársauka.

Pelé, sem löngum hefur verið talinn einn besti knattspyrnumaður sögunnar, vann á ferli sínum þrjú heimsmeistaramót af fjórum sem hann tók þátt á og er markahæsti leikmaður í sögu brasilíska landsliðsins með 77 mörk í 92 landsleikjum.

mbl.is